Enski boltinn

Mikið slúðrað um Chelsea

NordicPhotos/GettyImages

Enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea er mikið í slúðurblöðunum á Englandi og víðar í dag. Þannig er því haldið fram að Nicolas Anelka sé á leið til Lundúnaliðsins frá Bolton á næstu dögum og bent á að það sé ástæða þess að hann sé ekki í liði Bolton í bikarnum í dag.

Sagt er að Bolton vilji fá um 11 milljónir punda fyrir franska vandræðagemsann, sem hefur ekki lagt í vana sinn að staldra lengi við hjá sama liðinu á ferlinum.

Þetta eru ekki einu fréttirnar af Chelsea í dag því félagið hefur nú einnig verið orðað við mexíkóska undrabarnið Giovani Dos Santos hjá Barcelona. The Sun heldur því fram að Chelsea hafi gert Börsungum 10 milljón punda tilboð í drenginn og þar með sett Manchester United og Tottenham í viðbragðsstöðu. Það verður hinsvegar að teljast harla ólíklegt að Barcelona sé tilbúið að láta hinn 18 ára gamla hæfileikamann fara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×