Enski boltinn

John Carew er leikmaður 26. umferðar

Elvar Geir Magnússon skrifar
Carew setti þrennu síðustu helgi.
Carew setti þrennu síðustu helgi.

Sóknarmaðurinn John Carew hefur spilað stórt hlutverk í martröðum varnarmanna Newcastle síðan á laugardag. Carew skoraði þrennu fyrir Aston Villa um helgina en öll mörkin komu í seinni hálfleik.

Smelltu hér til að skoða myndband af leikmanni 26. umferðarinnar í ensku úrvalsdeildinni.

Carew átti stórleik og var stærsti þátturinn í því að Villa vann 4-1 sigur. Það er rúmt ár síðan hann gekk til liðs við Aston Villa en hann var hluti af skiptidíl við franska liðið Lyon sem fékk Milan Baros í sínar raðir.

Carew skoraði sitt fyrsta mark fyrir Villa í öðrum leik sínum fyrir félagið. Það var sigurmark gegn West Ham. Hann er ákaflega vinsæll meðal stuðningsmanna Villa fyrir vinnusemi sína og kraft í sóknarleiknum.

Honum hefur hinsvegar gengið brösuglega á þessu tímabili og ekki staðið undir væntingum. Mörkin hans þrjú um síðustu helgi gætu þó orðið ákveðinn vendipunktur á tímabilinu fyrir hann.

Carew er norskur en hann er fæddur 1979. Hann lék með Våleranga og Rosenborg áður en hann fór til Valencia á Spáni. Auk þess hefur hann leikið um stutt skeið með Roma og Besiktas.

Hann er mjög trúaður og gefur reglulega háar fjárhæðir til góðgerðarmála. Síðan hann kom til Villa hefur hann oft heimsótt barnaspítala í nágrenninu. Hann fagnar mörkum sínum nær undantekningarlaust með því að hlaupa til stuðningsmanna félagsins.

Nafn: John Carew.

Fæddur: 5. september 1979 í Noregi.

Félög: Våleranga, Rosenborg, Valencia, Roma, Besiktas, Lyon, Aston Villa.



Númer
: 10




Fleiri fréttir

Sjá meira


×