Fótbolti

Beckham hrósar Capello

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Beckham og Fabio Capello.
David Beckham og Fabio Capello. Nordic Photos / Getty Images

David Beckham hefur hrósað Fabio Capello fyrir þær breytingar sem hann hefur keyrt í gegn hjá enska landsliðinu sem hefur unnið fyrstu fjóra leiki sína í undankeppni HM 2010.

„Það er langt síðan að það var jafnmikið sjálfstraust í enska landsliðinu," sagði Beckham sem var lengi fyrirliði enska landsliðsins og lék á sínum tíma undir stjórn Capello hjá Real Madrid.

„Ég nýt leikjanna í undankeppninni og mér hefur verið heiður sýndur að fá að vera hluti af þessu liði sem hefur átt svo góðu gengi að fagna. Því er einfaldlega að þakka að liðið er að spila góða knattspyrnu."

England vann í gær 3-1 sigur á Hvít-Rússum en sigurinn þýddi að enska landsliðið hefur aldrei byrjað betur í undankeppni stórmóts. Beckham hefur tekið þátt í öllum fjórum leikjunum sem varamaður.

„Þjálfarinn veit hvernig á að vinna leiki, ekki bara á Wembley heldur líka á útivelli. Hann er mjög spenntur fyrir heimsmeistarakeppninni og það er frábært að vera hluti af hópnum."

„Ég vann með honum í Madríd í eitt ár. Ég veit því hvernig knattspyrnustjóra og persónu hann hefur að geyma. Ég veit hvers hann krefst af leikmönnum og hann nær því besta úr þeim."

Beckham lék í gær sinn 107. landsleik á ferlinum. Ef hann nær einum til viðbótar mun hann jafna leikjafjölda Sir Bobby Moore sem á flesta leiki að baki fyrir enska landsliðið að markvörðum frátöldum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×