Innlent

Sex manns fluttir á slysadeild eftir bruna í Tunguseli

MYND/Stöð 2

Sex manns voru fluttir á slysadeild vegna gruns um reykeitrun í brunanum í Tunguseli í morgun. Slökkvilið lauk störfum um hálfáttaleytið en enn er allt á huldu um eldsupptök.

Eins og fram kom í fréttum í morgun lést karlmaður þegar eldur kviknaði í íbúð á þriðju hæð í fjölbýlishúsi við Tungusel um klukkan sex. Þremur manneskjum var bjargað úr íbúðinni þar sem eldurinn kom upp og notuðust slökkviliðismenn við körfubíl þar sem ófært var um stigaganginn vegna reykjarkófs. Þá var fólki af fjórðu hæð hússins einnig bjargað með körfubíl.

Sjö voru fluttir á sjúkrahús eftir brunann, þar á meðal maðurinn sem lést. Þrír voru útskrifaðir eftir skoðun en þrennt er í meðferð í svokölluðum háþrýstiklefa vegna reykeitrunar. Að sögn vakthafandi læknis á slysadeild Landspítalans en búist að þremenningarnir nái sér að fullu.

Slökkvilið sendi strætisvagn á vettvang til að taka við því fólki sem býr í stigaganginum þar sem eldurinn logaði. Þá sendir Rauði kross Íslands þrjá sjálfboðaliða á vettvang til að aðstoða íbúana. Að sögn Ingibjargar Eggertsdóttur, verkefnastjóra hjá Rauða krossinum, var alls um að ræða 12 manns í íbúðunum en þeim var veitt áfallahjálp og útvegað föt. „Auk þess kom fólk úr nærliggjandi stigagöngum með kaffi og meðlæti," segir Ingibjörg en íbúarnir fengu að snúa aftur í íbúðir sínar um klukkan átta þegar slökkvistarfi var lokið.

Ljóst er að íbúðin sem brann er illa farin og þá urðu töluverðar reykskemmdir á stigagangi hússins. Lögreglar rannsakar brunann og er rannsókn hennar er á byrjunarstigi og eldsupptök ókunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×