Fótbolti

Capello veit ekkert um landslið Kasakstan

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englendinga.
Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englendinga. Nordic Photos / Getty Images

Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands, segist ekkert lengur vita um landslið Kasakstan eftir að landsliðsþjálfarinn var rekinn í síðasta mánuði.

Kasakstan tapaði sínum fyrstu tveimur leikjum í undankeppni HM 2010 í september, fyrir Úkraínu og Króatíu. Í kjölfarið var Arno Pijpers, hollenskur landsliðsþjálfari Kasaka, látinn fara.

Þjóðverjinn Bernd Storck tók við en hann var áður þjálfari U-21 liðs Kasakstan. Hann hefur nú gert miklar breytingar á leikmannahópnum og hent mörgum fastamönnum úr liðinu á kostnað ungra leikmanna sem hafa ekki spilað með A-liðinu áður.

„Ég sá þrjá leiki með Kasakstan en nú er allt breytt og ég veit ekki neitt. Liðið er skipað mörgum ungum leikmönnum úr 21 árs liðinu og þekki ég aðeins fjóra menn í hópnum," sagði Capello.

Leikurinn fer fram á Wembley-leikvanginum á morgun. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sporti.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×