Fótbolti

Búist við 45-50 þúsund manns á völlinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
De Kuip-leikvangurinn.
De Kuip-leikvangurinn. Mynd/Ómar

Áhugi fyrir landsleik Hollands og Íslands í undankeppni HM 2010 í kvöld er mikill í Rotterdam þrátt fyrir að um litla Ísland sé að ræða og strax á þriðjudag voru um 35 þúsund miðar þegar búnir að seljast.

Hollenskir aðdáendur búast við mikilli sýningu og gera ekki bara kröfu á að hollenska liðið vinni, heldur vinni með stæl og skori mörg mörk.

De Kuip-leikvangurinn er heimavöllur Feyenoord og tekur 64. þúsund manns í sæti en búist er við því að um 45-50 þúsund manns mæti á völlinn í kvöld.

Nokkrir leikmenn Feyenoord, þeir Henk Timmer, Tim de Cler og Giovanni van Bronckhorst, eftirlætissonur Rotterdam, eru í leikmannahópi Hollands auk þess sem landsliðsþjálfarinn Bert van Marwijk stýrði áður liði Feyenoord.

Það gæti skýrt áhugann á leiknum í Rotterdam að einhverju leyti en eins og fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarið þá hefur endurkoma Péturs Péturssonar aðstoðarlandsliðsþjálfara einnig vakið gríðarlega athygli í Rotterdam enda Pétur hylltur sem stórstjarna þegar hann lék með Feyenoord á árunum 1978-1981 og 1984-1985.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×