Fótbolti

Ólafur: Lofa því að sækja á miðvikudaginn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari og Pétur Pétursson, aðstoðarmaður hans.
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari og Pétur Pétursson, aðstoðarmaður hans. Mynd/E. Stefán
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari sagði eftir leik Hollands og Íslands í kvöld að það hefði margt hægt að gera betur í leiknum en að hann væri samt sáttur við heildarniðurstöðuna.

„Það má alltaf gera betur. Mér fannst við byrja ekki nógu vel í leiknum. Við lágum of langt til baka og gerðum í raun ekki neitt nema að vera í vörn. Við ætluðum að gera meira," sagði Ólafur í samtali við Stöð 2 Sport eftir leik.

„Stressið hefur örugglega haft sitt að segja. Þegar við fengum möguleika til að gera eitthvað virtist alltaf koma léleg sending. En ég var samt ekkert ósáttur. Það er ekki oft sem við fáum eins tækifæri og við fengum í dag gegn jafn sterkum andstæðingi," sagði hann.

Það kom nokkuð á óvart að hann stillti Ragnari Sigurðssyni upp í stöðu hægri bakvarðar í fjarveru Grétars Rafns Steinssonar sem var meiddur. Ragnar var tekinn af velli í síðari hálfleik og Birkir Már Sævarsson færður í stöðu bakarðar.

„Ragnar átti í vandræðum með sinn mann í upphafi leiksins. Hann átti að vera nær sínum manni og hann náði að bæta sig. Auðvitað er auðvelt að segja eftir á að ég hefði átt að setja Birki í bakvörðinn fyrr."

„Við ræddum það svo í hálfleik að þora að færa annan miðjumanninn nær sókninni. Það gekk ágætlega í upphafi seinni hálfleiks en það fjaraði undan því og menn duttu aftur í skotgrafirnir. Þá var leiðin að hollenska markinu aftur orðin of löng."

Næst mætir Ísland landsliði Makedóníu en sá leikur fer fram á Laugardalsvellinum á miðvikudaginn kemur.

„Við stefnum að því að vinna þann leik. Leikurinn verður þó mjög erfiður enda alltaf erfitt að spila gegn Austur-Evrópuþjóð. En ég lofa því að sækja meira í þeim leik og fara með allt liðið framar á völlinn. Í dag var leiðin að marki andstæðingsins allt of löng."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×