Fótbolti

Grétar lofar Hollendingum erfiðum leik

Grétar Rafn lék áður með AZ Alkmaar í Hollandi
Grétar Rafn lék áður með AZ Alkmaar í Hollandi NordicPhotos/GettyImages

Landsliðsmaðurinn Grétar Rafn Steinsson segir að Hollendingar megi búast við harðri mótspyrnu frá Íslendingum þegar liðin mætast í undankeppni HM í Rotterdam á laugardaginn.

Grétar þekkir vel til í Hollandi eftir að hafa spilað með liði AZ Alkmaar um árabil og á von á erfiðum leik eins og flestir.

"Hollenska liðið er mjög gott og því verðum við að láta þá finna vel fyrir okkur. Við getum nýtt okkur líkamlega yfirburði okkar og reyna að skapa hættu í föstum leikatriðum," sagði Grétar í samtali við De Telegraaf í dag.

Hann segir að leikstíll íslenska liðsins sé að breytast frá því sem áður var. "Við erum að eignast fleiri og fleiri atvinnumenn og nú getum við lagt meira upp úr spili í stað þess að dæla háum sendingum eins og við gerðum í eina tíð," sagði Grétar.

Hann er ekki í vafa um styrk hollenska liðsins, en segir íslensku strákana ætla að reyna að gera mótherjum sínum lífið leitt.

"Hollendingar eru með heimsklassaleikmenn í öllum stöðum og hafa sannað að þeir eru frábært lið. Við getum hinsvegar gert þeim lífið leitt ef þeir vanmeta okkur. Hugarfarið í íslenska hópnum er frábært og því held ég að þetta verði áhugaverður leikur," sagði Grétar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×