Fótbolti

Boyd lætur Burley heyra það

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
George Burley, leikmaður Rangers.
George Burley, leikmaður Rangers. Nordic Photos / Getty Images

Kris Boyd, fyrrum leikmaður skoska landsliðsins, sendi George Burley landsliðsþjálfara tóninn og sakaði hann um ódrengilega hegðun.

Burley ákvað að draga sig úr skoska landsliðinu eftir leik Skota og Norðmanna á laugardaginn og gefa ekki aftur kost á sér á meðan að Burley væri við stjórnvölinn. Hann vonaðist til þess að fá tækifæri að spila aftur fyrir skoska landsliðið er það væri undir stjórn annars þjálfara.

Burley svaraði þessu þannig til að hann efaðist um að Boyd væri nægilega stoltur og dyggur til þess að spila fyrir hönd sinnar þjóðar.

„Ég tel að ég hafi áður sýnt að ég bý yfir þeirri hollustu sem þarf til að spila fyrir skoska landsliðið. Mér fannst þetta neðanbeltishögg hjá honum," sagði Boyd.

„Ég tók þessa ákvörðun fyrir mörgum mánuðum síðan en hélt áfram og vildi gefa sjálfum mér annað tækifæri. En ekkert gekk og ég fékk einfaldlega nóg."

„Ég vildi einbeita mér að mínu félagi og festa mig betur í sessi þar. Það er það sem ég ætla að gera," sagði Boyd.

Hann sagðist þó ekki ætla að láta draga sig í orrahríð gegn Burley. „Ég ætla að láta lítið fyrir mér fara, leggja hart að mér í minni vinnu og vinna mér sæti í byrjunarliði Rangers."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×