Enski boltinn

Bolton nánast öruggt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
El-Hadji Diouf kom Bolton á bragðið í dag.
El-Hadji Diouf kom Bolton á bragðið í dag. Nordic Photos / Getty Images

Bolton vann í dag gríðarlega mikilvægan 2-0 sigur á Sunderland í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

El-Hadji Diouf skoraði fyrra mark Bolton en Daryl Murphy, leikmaður Sunderland, skoraði sjálfsmark undir lok leiksins.

Þetta þýðir að Bolton er með þriggja stiga forystu á Fulham og Reading fyrir lokaumferðina en þar sem Bolton er með besta markahlutfall þessara þriggja liða er liðið nánast öruggt með sæti sitt í úrvalsdeildinni.

Grétar Rafn Steinsson var á sínum stað í byrjunarliði Bolton en þeir Kevin Davies, Danny Guthrie og El-Hadji Diouf komu inn í byrjunarliðið. Joey O'Brien og Ivan Campo eru meiddir og Grzegorz Rasiak var settur á bekkinn.

Sunderland gerði eina breytinga á sínu liði en Jonny Evans lék með liðinu á nýjan leik eftir meiðsli á kostnað Carlos Edwards.

Fyrri hálfleikur var nokkuð tíðindalítill en Bolton var þó meira með boltann. Grétar Rafn átti skalla að marki sem Craig Gordon varði og skömmu síðar átti Davies skalla að marki af stuttu færi en boltinn fór yfir.

Kenwyne Jones átti ágætt færi sem Ali Al Habsi, markvörður Bolton varði, og skömmu síðar missti hann naumlega af sendingu stutt frá markinu.

En undir lok fyrri hálfleiksins kom markið þýðingarmikla. Kevin Nolan átti sendingu á fjarstöng þar sem El-Hadji Diouf var mættur og skoraði með góðu skoti af markteig.

Diouf var svo nærri því að bæta öðru marki við í upphafi seinni hálfleiks er hann skallaði í stöng eftir fyrirgjöf Matthew Taylor.

Kenwyne Jones fékk svo dauðafæri til að jafna leikinn er Roy O'Donovan skallaði boltann beint fyrir fætur hans. Jones stóð tvo metra frá markinu en missti af boltanum.

En þegar tíu mínútur voru til leiksloka kom síðara mark leiksins. Bolton átti hornspyrnu og varð Daryl Murphy fyrir því óláni að skalla boltann í eigið mark.

Bolton er því í góðri stöðu fyrir lokaumferðina þar sem liðið mætir Chelsea á útivelli. Ekki margir reikna með því að Bolton hafi mörg stig upp úr krafsinu í þeim leik.

Bolton er nú með þriggja stiga forystu á Fulham og Reading. Ef Bolton tapar 1-0 fyrir Chelsea þarf Fulham að vinna Portsmouth á útivelli með fjögurra marka mun í lokaumferðinni til að komast fyrir ofan Bolton í töflunni.

Reading þarf að vinna Derby með tíu marka mun í lokaleik sínum til að gera slíkt hið sama.

Staða Bolton er því ansi sterk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×