Innlent

Skjárinn segir öllum upp

Skjárinn, sem sér um rekstur SkjásEins, hefur sagt upp öllum sínum starfsmönnum. „Í ljósi mikils samdráttar á auglýsingamarkaði, ójafnrar samkeppni frá RÚV og óvissu um innkaupsverð á sjónvarpsefni frá útlöndum hefur Skjárinn tilkynnt öllum starfsmönnum sínum að þeim verði sagt upp frá og með 1. nóvember," segir í tilkynningu frá fyrirtækinu. Framkvæmdastjórinn segist vonast til að úr rætist þannig að uppsagnirnar þurfi ekki að taka gildi. Hjá Skjánum eru 40 fastráðnir og fimm verktakar.

„Vonandi þurfa uppsagnir starfsmanna ekki að taka gildi en uppsagnarfresturinn er í flestum tilvikum þrír mánuðir," segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri. Í samtali við Vísi sagði Sigríður að fastráðnir starfsmenn Skjásins væru 40 talsins. Að auki störfuðu fimm verktakar hjá fyrirtækinu.

„Til þess að starfsemi SkjásEins geti haldið áfram þarf tvennt að gerast; annars vegar þurfa stjórnvöld að taka ákvörðun um að hér ríki eðlilegt samkeppnisumhverfi, sambærilegt við það sem gerist á öðrum Norðurlöndum. Hins vegar þarf SkjárEinn að endursemja við erlenda birgja þegar gjaldeyrisviðskipti komast í lag," segir Sigríður.

„Stjórnendur og starfsmenn munu taka höndum saman á næstu vikum til þess að starfsemin geti haldið áfram, áhorfendum og auglýsendum til heilla."

Skjárinn sér um rekstur auglýsingasjónvarpsstöðvarinnar SkjásEins. Skjárinn sér einnig um rekstur SkjásBíós, sem er vídeóleiga heima í stofu og SkjásHeims sem veitir áskrift að yfir 60 erlendum sjónvarpsstöðvum.

Ef uppsagnirnar taka gildi munu breytingarnar hafa áhrif á rekstur SkjásEins en viðskiptavinir munu áfram hafa aðgang að þjónustu SkjásBíós og SkjásHeims.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.