Fótbolti

Tveggja marka tap í Hollandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gunnleifur Gunnleifsson átti mjög góðan leik í íslenska markinu í dag.
Gunnleifur Gunnleifsson átti mjög góðan leik í íslenska markinu í dag. Nordic Photos / AFP

Stjörnum prýtt hollenskt landslið vann tveggja marka sigur á Íslandi í undankeppni HM 2010 í kvöld, 2-0, á De Kuip-leikvanginum í Rotterdam.

Joris Mathijsen kom Hollendingum yfir strax á fimmtándu mínútu leiksins og Klaas Jan Huntelaar bætti síðara markinu við á 61. mínútu.

Leikurinn fór ekkert sérstaklega af stað hjá íslenska liðinu og þeir hollensku gengu á lagið og komust yfir. Fljótlega eftir það fór að birta til í íslenska liðinu og leikmenn byrjuðu að spila sín á milli og reyna að byggja upp sóknir.

Síðasta stundarfjórðunginn í fyrri hálfleik og sá fyrsti í seinni hálfleik var mjög góður hjá íslenska liðinu. Liðið skapaði sér þó nokkur færi en mesta hættan kom þegar Eiður Smári Guðjohnsen, sem átti annars slakan dag, skaut í hliðarnetið úr aukaspyrnu rétt utan teigs.

Huntelaar nýtti sér svo tækifærið þegar að íslensku varnarmennirnir sváfu á verðinum og komst einn gegn Gunnleifi Gunnleifssyni markverði og skoraði af öryggi. Það verður þó ekki við Gunnleif sakast í dag enda átti hann afar góðan dag og var meðal allra bestu leikmanna liðsins.

Eftir það var alltaf ljóst í hvað stefndi og leikurinn fjaraði einfaldlega út.

Sem fyrr segir var sigurinn sanngjarn en íslenska liðið fékk sín tækifæri í leiknum sem það hefði mátt nýta sér sumpart mun betur. Það er þó ljóst að hollenska liðið var einfaldlega of sterkt fyrir það íslenska. Hollensku leikmennirnir gerðu einfaldlega það sem þeir þurftu en alls ekkert meira en það.

Kristján Örn Sigurðsson átti stórleik í íslensku vörninni og var einfaldlega besti maður vallarins. Flestir komust ágætlega frá sínu en tveir allra reynslumestu menn liðsins, Eiður Smári og Hermann Hreiðarsson, hafa yfirleitt spilað betur en í dag.

Brynjar Björn Gunnarsson kom aftur inn í landsliðið eftir langvarandi meiðsli og átti góðan leik.

Fylgst var með leiknum á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins og má lesa nánar um gang hans þar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×