Enski boltinn

Owen fór hörðum orðum um Keegan í ævisögunni

NordicPhotos/GettyImages

Þegar tilkynnt var að Kevin Keegan yrði næsti stjóri Newcastle í gær urðu margir forvitnir að vita hvernig þau tíðindi færu í framherjann Michael Owen.

Litlir kærleikar hafa verið milli Owen og Keegan eftir að þeim lenti saman um aldamótin þegar Keegan var þjálfari enska landsliðsins á EM 2000. Owen lýsti tíma sínum með Keegan sem myrku tímabili á ferli sínum og sagðist hafa verið farinn að efast um getu sína.

Alan Shearer, fyrrum fyrirliði Newcastle, segist ekki sjá af hverju þessir tveir ættu ekki að geta unnið saman í dag þrátt fyrir deilu sína fyrir nærri átta árum.

"Þeir jafna sig á þessu. Þetta verður ekki vandamál, ég lofa ykkur því," sagði Shearer í samtali við breska sjónvarpið.

Owen fór hörðum orðum um Keegan í ævisögu sinni árið 2004 þar sem hann sagði þjálfarann hafa barið úr sér allt sjálfstraust.

Englendingar féllu úr riðlakeppninni á EM og Owen segir að ræða Keegan fyrir leikinn mikilvæga gegn Rúmenum í keppninni þar sem allt fór í handaskolin hafi snúist um sig frá a til ö.

"Ég hætti að þola hann eftir þetta - ekki sem manneskju - heldur sem þjálfara," skrifaði Owen á sínum tíma.

Shearer hefur ekki miklar áhyggjur af þessu. "Owen á eftir að elska að spila fyrir Keegan því hann er framherji og Keegan spilar sóknarbolta. Owen á eftir að skora meira en nokkru sinni fyrr."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×