Fótbolti

Löw velur Kuranyi ekki aftur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kevin Kuranyi í leik með þýska landsliðinu.
Kevin Kuranyi í leik með þýska landsliðinu. Nordic Photos / AFP
Joachim Löw, landsliðsþjálfari Þýskalands, hefur tilkynnt að hann muni ekki velja framherjann Kevin Kuranyi aftur í landsliðið svo lengi sem hann verður við stjórnvölinn.

Þjóðverjar unnu í gær Rússa, 2-1, í undankeppni HM 2010 og var Kuranyi ekki valinn í átján manna leikmannahópinn. Hann horfði á leikinn í stúkunni.

Eftir leikinn mætti hann ekki í liðsrútuna eins og honum var skylt að gera og hafði ekkert samband við liðið fyrr en á sunnudagsmorgun.

„Mér er það ómögulegt að taka viðbrögð Kevin góð og gild og því hef ég ákveðið að velja hann ekki aftur í þýska landsliðið," sagði í yfirlýsingu frá Löw.

Kuranyi horfið á fyrri hálfleikinn með félögum sínum og bað svo um leyfi í hálfleik að skipta um föt og hitta félaga sína. Honum var veitt það leyfi en eftir að leiknum lauk var hann horfinn og ekki náðist í samband við hann í farsíma hans.

Tveir félagar hans munu einnig hafa komið á hótel þýska landsliðsins til að sækja eigur Kuranyi.

Þýskalandi mætir Wales á miðvikudaginn í Mönchengladbach.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×