Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, eða IMF, mun fresta því fram á mánudag að taka fyrir beiðni Íslands um 2 milljarða dala lán frá sjóðnum. Þetta sagði Geir Haarde forsætisráðherra í ræðu sinni á Alþingi fyrir hádegi.
Árni Mathiesen fjármálaráðherra, sagði í óundirbúnum fyrirspurnum á þingi fyrr í dag, að hugsanlegt væri að deilan við Breta og Hollendinga um Icesave-reikninga Landsbankans hefði áhrif á niðurstöðu stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um lán til Íslendinga.
Upphaflega átti að fjalla um mál Íslands í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í fyrradag en vegna andstöðu Breta og líka Hollendinga var ákvörðuninni frestað til morgundags og svo aftur nú fram yfir helgi.