Innlent

Aron Pálmi ætlar að lögsækja Trent saksóknara

Aron Pálmi segir nóg komið.
Aron Pálmi segir nóg komið.

Aron Pálmi Ágústsson segist í samtali við Vísi vera staðráðinn í því að sækja Mike Trent, aðstoðar saksóknara í Texas til saka fyrir ofsóknir gegn sér. Trent heldur því fram að Aron Pálmi hafi brotið gegn fleiri börnum en hann var dæmdur fyrir á sínum tíma og í samtali við Vísi sagði hann að börnum stæði ógn af honum. Trent sendi Vísi meðal annars gögn úr málinu og vitnisburði sálfræðinga sem hann segir sýna fram á að Aron hafi viðurkennt fleiri brot.

Aron segir hins vegar að gögnin séu fölsuð og að hann hafi aldrei viðurkennt að hafa gert neitt annað en það sem hann var dæmdur fyrir. Hann segir að Trent hafi ekki verið í rétti þegar hann sendi Vísi skjölin sem eigi að vera lokuð þar sem um mál barns sé að ræða. Hann hefur ákveðið að reyna að draga Trent fyrir rétt vegna þessara ásakana sem hann hefur borið upp á Aron.

„Þessi maður hefur hótað því að gera líf mitt að lifandi helvíti og ég get ekki setið undir því. Ég verð að grípa til varna fyrir mig og fjölskyldu mína. Ég ætla ekki að lifa lífi mínu í stöðugum ótta yfir því á hverju hann tekur upp á næst," segir Aron Pálmi.

Að hans sögn hefur hann þegar haft samband við lögrfræðinga hér á landi sem og í Texas og vonast hann til þess að geta lögsótt Trent í Texas áður en langt um líður. „Það er nóg komið," segir Aron Pálmi Ágústsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×