Enski boltinn

Allardyce var aldrei fyrsti kostur

Mike Ashley, eigandi Newcastle
Mike Ashley, eigandi Newcastle NordicPhotos/GettyImages

Vinur Mike Ashley, eiganda Newcastle, segir að eigandinn hafi ekki treyst Sam Allardyce fyrir því að kaupa leikmenn til félagsins. Hann segir Stóra-Sam aldrei hafa verið fyrsta kost Ashley í stjórastólinn, en Ashley keypti Newcastle skömmu eftir að Allardyce var ráðinn til starfa.

Paul Kemsley er góður vinur hins dularfulla eiganda Newcastle og hann þekkir vel til í boltanum eftir að hafa verið í stjórn Tottenham á sínum tíma.

Í samtali við breska ríkissjónvarpið segir Kemsley það ekki hafa komið sér á óvart að Allardyce hafi verið rekinn, því hann hafi aldrei verið fyrsti kostur eigandans í stjórastólinn.

"Félagið var þegar búið að ráða Sam þegar Mike keypti Newcastle og því varð hann að bíða og sjá hvað Allardyce myndi gera. Mike vildi spila góða sóknarknattspyrnu og eyddi 250 milljónum punda í félagið. Hann vill örugglega eyða meiru í janúarglugganum, en þá vill hann líka gera það með stjóra sem hann hefur trú á sjálfur," sagði Kemsley.

Nú hefur Harry Redknapp verið orðaður við stöðuna í ljósi þess að Alan Shearer hefur útilokað að taka við af Allardyce.

Redknapp segist ekkert hafa heyrt að norðan.

"Ég hef ekki heyrt neitt í mönnum frá Newcastle, en ég get sagt ykkur að þó maður sé orðaður við þetta eða hitt - er ekki þar með sagt að sé eitthvað að gerast. Ég fékk tilboð um að taka við risafélagi fyrir ekki löngu en hafnaði því. Ég er ánægður á suðurströndinni," sagði Redknapp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×