Fótbolti

Capello vill meira frá Gerrard

NordicPhotos/GettyImages

Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, segir að Fabio Capello landsliðsþjálfari Englands hafi farið fram á að hann sýni meira með enska landsliðinu.

Gerrard hefur oftar en ekki verið frábær með liði Liverpool undanfarin ár en hefur verið gagnrýndur nokkuð fyrir að ná aldrei sama takti með enska landsliðinu.

"Capello vill fá sama framlag frá mér með landsliðinu og ég sýni hjá Liverpool og er tilbúinn að hjálpa mér með það. Ég hef ekki alltaf verið eins góður hjá landsliðinu og ég hef verið hjá Liverpool, en það er ekki af því ég hafi ekki reynt. Ég þarf meiri stöðugleika með landsliðinu," sagði Gerrard.

Hann segir það mikið atriði fyrir sig að ná sér á strik með landsliðinu, því Capello sé alveg sama um stór nöfn.

"Það er áskorun fyrir mig að ná fram mínu mesta með landsliðinu, því Capello hefur sýnt að hann er ekkert hræddur við að gera breytingar. Honum er alveg sama um stór nöfn og stjörnur - hann velur liðið sem hann telur að geti unnið leiki."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×