Enski boltinn

Ronaldo er leikmaður 22. umferðar

AFP

Vængmaðurinn Cristiano Ronaldo hjá Manchester United fór hamförum um helgina þegar liðið rótburstaði Newcastle 6-0. Ronaldo skoraði þrennu í leiknum, þá fyrstu fyrir United á ferlinum.

Smelltu hér til að sjá myndband af leikmanni 22. umferðar - Cristiano Ronaldo.

Ekkert mark leit dagsins ljós í fyrri hálfleiknum á Old Trafford á sunnudaginn en eftir hlé opnaðist fyrir allar flóðgáttir og leikmenn United fóru á kostum. Alls urðu mörkin sex eins og áður sagði, en sigur heimamanna hefði geta orðið miklu stærri gegn stjóralausum gestunum.

Nokkur marka United liðsins voru sannarlega mikið fyrir augað og þó leikurinn hafi ekki verið spennandi, buðu sóknarleikmenn United upp á sannkallaða sýningu með Ronaldo fremstan í flokki.

Það eru ekki nema fjórar umferðir síðan Cristiano Ronaldo var síðast útnefndur leikmaður umferðarinnar, en þrenna hans gegn Newcastle tryggði að hann fékk litla samkeppni um nafnbótina að þessu sinni.

Fyrsta mark hans kom úr lúmskri aukaspyrnu þar sem hann læddi boltanum undir varnarvegginn hjá Newcastle. Annað markið kom eftir laglega sendingu frá Carlos Revez og var eitt fallegasta mark leiksins. Þriðja markið hrökk svo af varnarmanni og í netið - en hann átti það fyllilega skilið eftir frammistöðuna.

Fullt nafn: Cristiano Ronaldo dos Santos Aveiro.

Fæddur: 5. febrúar 1985 á Madeira í Portúgal.

Félög: Sporting Lissabon og Manchester United.

Númer: 7




Fleiri fréttir

Sjá meira


×