Erlent

Yfir 50 danskir nasistar hafa skráð sig í herinn og heimavarnarliðið

Danski nasistaflokkurinn hefur sent að minnsta kosti 50 af meðlimum sínum inn í danska herinn og heimavarnarliðið. Þar eiga þeir að læra að drepa útlendinga.

Þetta kemur fram í viðtali við Jonni Hansen leiðtoga danska nasistaflokksins sem birt er í Ekstra Bladet í dag. Hann segir að hann hvetji meðlimi flokksins til að skrá sig í herinn því þar geti þeir lært að meðhöndla og nota vopn á alveg löglegan hátt. Og það sé einkum ástæðan fyrir þessu.

Sjálfur hefur Jonni Hansen verið meðlimur heimavarnarliðsins eða hjemmeværnet eins og það kallast. Ferill hans var þó ekki langur áður en hann var rekinn þaðan með skömm.

Þeir nasistar sem skráðir eru nú láta hinsvegar lítið á sér bera í hernum og heimavarnarliðinu en Hansen segir að hann ætli að nota sér þjónustu þeirra í komandi borgarastríði gegn útlendingum.

Hansen er ekkert að skafa af hlutunum og segir að þegar borgarastríðið skelli á séu þeir tilbúnir til að skjóta alla útlendinga af öðrum kynþáttum en hvítum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×