Innlent

Konan í Tunguseli útskrifuð í dag

Helga Elísdóttir, móðir konunnar sem bjó í íbúðinni í Tunguseli sem eyðilagðist í eldi í gær, segir að dóttir sín og synir hennar tveir séu við góða líkamlega heilsu en að þau glími enn við andlega áfallið. Konan verður útskrifuð af sjúkrahúsi síðar í dag. Vinur fjölskyldunnar fórst í brunanum en áður tókst honum að bjarga konunni og drengjunum tveimur sem eru tólf og sjö ára gamlir.

Helga segist vilja koma þakklæti til allra þeirra sem hafa boðið fjölskyldunni aðstoð á þessum erfiðu tímum. Róbert Guðmundsson, vinur fjölskyldunnar, stofnaði til söfnunar fyrir þau og segir hann rúma hálfa milljón þegar hafa safnast.

Helga sagðist í samtali við Vísi vera að kaupa föt á drengina og dóttur sína en þau misstu allt sitt í brunanum. Enn er ekki ljóst hvar þau munu dvelja næstu daga en Helga segist vera að vinna í því að finna þeim samastað.

Að sögn Helgu er henni efst í huga sá stuðningur og sú velvild sem fjölskyldan hefur fundið fyrir í kjölfar atburðanna. Mæðginin hafi fengið áfallahjálp og prestur hefur verið þeim til halds og trausts.

Að sögn Róberts hefur söfnunin gengið mjög vel, um hálf milljón króna hafi þegar safnast. Auk þess hafa mæðginin fengið ný föt og rúm. Róbert vill einnig koma á framfæri innilegu þakklæti til þjóðarinnar fyrir að bregðast svo skjótt við sem raun ber vitni.

Þeir sem vilja styrkja fjölskylduna á þessum erfiðu tímum er bent á reikning sem settur hefur verið upp í nafni eldri sonarins.

Reikningsnúmerið er 113-05-066351 og kennitalan 190796-3029.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×