Fótbolti

Boyd fúll út í Burley

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kris Boyd, leikmaður Rangers.
Kris Boyd, leikmaður Rangers. Nordic Photos / Getty Images
Skoski framherjinn Kris Boyd hefur gefið það út að hann muni ekki spila með skoska landsliðinu svo lengi sem það er undir stjórn George Burley.

Boyd sagði að hann hefði skilið eftir skilaboð á talhólfi Burley og að hann hefði ekkert heyrt í honum eftir það.

„Ég mun ekki spila fyrir George Burley aftur en vonandi mun ég klæðast landsliðstreyjunni aftur einn daginn," sagði Boyd.

Boyd hefur aðeins spilað nokkrar mínútur með landsliðinu síðan að Burley tók við og hann fékk ekki tækifæri til að koma inn á er Skotar og Noðrmenn gerðu markalaust jafntefli í gær.

Í útvarpsviðtali eftir leik varði Burley ákvörðun sína að setja frekar Chris Iwelumo inn á í leikinn fremur en Boyd.

„Kris verður að sanna sig hjá Rangers sem hann hefur ekki gert," sagði Burley. „Chris kom inn á vegna þess að hann hefur verið að spila reglulega og hefur skorað átta mörk í sex leikjum með Wolves. Leikmenn þurfa alltaf að sanna sig og Boyd er ekki frábrugðinn neinum öðrum í hópnum," bætti hann við.

Eftir að Boyd heyrði þessi ummæli lét hann Burley vita af ákvörðun sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×