Fótbolti

Skotar og Norðmenn skildu jafnir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Chris Iwelumo brennir hér af dauðafæri fyrir opnu marki.
Chris Iwelumo brennir hér af dauðafæri fyrir opnu marki. Nordic Photos / AFP
Skotland og Noregur skildu jöfn í fyrri leik dagsins í 9. riðli í undankeppni HM 2010. Ekkert mark var skorað í leiknum.

Þetta eru jákvæð úrslit fyrir íslenska liðið enda ljóst að öll liðin í riðlinum, utan Hollands, munu bítast um annað sæti riðilsins.

Chris Iwelumo lék í dag sinn fyrsta A-landsleik með Skotum þó hann sé þrítugur að aldri en hann klúðraði dauðafæri fyrir opnu marki skömmu eftir að hann kom inn á sem varamaður.

Norðmenn áttu líka sín færi en Craig Gordon, markvörður Skota, varði vel frá þeim Björn Helge Riise og John Carew.

Athygli vakti að Jon Knudsen stóð vaktina í norska markinu í dag í stað Rune Jarstein sem átti skelfilegan dag er Ísland náði jafntefli í Osló í síðasta mánuði.

Skotar eru nú í efsta sæti riðilsins með fjögur stig en er eina liðið sem er búið að spila þrjá leiki.

Holland er með þrjú stig eftir einn leik, Makedónía einnig þrjú en eftir tvo leiki.

Norðmenn eru svo með tvö stig eftir tvo leiki og Ísland í fimmta sæti riðilsins með eitt stig eftir tvo leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×