Sunderland vann góðan 2-0 sigur á Middlesbrough í fyrsta leik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í dag. Boro klúðraði vítaspyrnu áður en Michael Chopra skoraði tvö mörk fyrir heimamenn undir lokin og tryggði þeim sigur í grannaslagnum í norðri.
Bæði lið fóru frekar illa með færi sín í leiknum en markverðirnir gerðu líka sitt til að koma í veg fyrir að mörkin litu dagsins hljós.
Boro fékk gullið tækifæri til að tryggja sér fyrsta útisigurinn á árinu þegar liðið fékk vítaspyrnu, en Stewart Downing skaut yfir markið og klikkaði þarna á annari spyrnu sinni á leiktíðinni.
Þegar níu mínútur voru til leiksloka skoraði varamaðurinn Chopra eftir sendingu frá Kieran Richardson og bætti svo öðru við í uppbótartíma eftir undirbúning Steed Malbranque.
Sunderland skaust í fimmta sæti deildarinnar með sigrinum en Middlesbrough situr í 12. sætinu. Staða liðanna á þó væntanlega eftir að breytast mikið um helgina þar sem þetta var fyrsti leikurinn í 5. umferðinni.