Fótbolti

Albanir sakaðir um að selja leiki í undankeppni EM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rúmeninn Nicolae Dica fagnar einu sex marka síns liðs gegn Albönum í síðasta mánuði.
Rúmeninn Nicolae Dica fagnar einu sex marka síns liðs gegn Albönum í síðasta mánuði. Nordic Photos / AFP

Formaður albanska knattspyrnusambandsins hefur verið sakaður um að selja tvo leiki í undankeppni EM 2008 af menningarmálaráðherra landsins.

Um helgina sagði Knattspyrnusamband Evrópu frá því að það hefði afhent alþjóðalögreglunni Interpol 96 síðna skýrslu þar sem grunur leikur á að úrslitum fimmtán leikja í hinum ýmsu keppnum á vegum sambandsins hafi verið hagrætt.

Talið er að umræddir leikir hafi allir átt sér stað í austurhluta Evrópu.

Sali Berisha, forsætisráðherra Albaníu, sagði að landslið Albaníu væri „hópur mafíósa sem selja treyjur sínar".

Albanía tapaði síðustu tveimur leikjum sínum í undankeppninni, 6-1 fyrir Rúmeníu á útivelli og 4-2 fyrir Hvíta Rússlandi á heimavelli.

Ylli Pango, menningarmálaráðherra Albaníu, bað UEFA um að rannsaka leikina þar sem „grunur leikur á um að formaður knattspyrnusambandsins okkar, Armando Duka, hafi selt báða leikina".

Pango var beinskeyttur í bréfi sínu til UEFA.

„Það eru til sönnunargögn um að hann noti landsliðið okkar til eigin hagsmuna og móðgaði þar með stuðningsmenn þess."

Leikmenn landsliðsins mótmæltu þessum ásökunum kröftuglega og sögðust ætla að leita réttar síns ef rannsókn myndi leiða í ljós sakleysi þeirra.

Talsmaður UEFA staðfesti mótttöku bréfsins en hafði engin frekari ummæli um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×