Innlent

Öllu innanlandsflugi aflýst í dag

Öllu innanlandsflugi hefur verið aflýst í dag vegna óveðursins sem gengur yfir landið. Millilandaflug liggur einnig niðri. Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu hefur mikið verið um minniháttar útköll hjá björgunarsveitum, m.a. í Vestmannaeyjum, Borgarnesi, Sandgerði og Suðurnesjum.

Björgunarsveitin Kjölur á Kjalarnesi var kölluð út nú fyrir skömmu þegar flæddi inn í hundahótelið í Dalsmynni eftir að aurskriður féllu við húsið.

Í Hafnarfirði fauk byggingarkrani og í Vestmannaeyjum losnaði klæðning af húsi. Í Borgarnesi brotnaði rúða. Ýmislegt lauslegt hefur fokið en ekki er vitað um stórt tjón.

Óveður er nú um allt vestanvert landið og ekkert ferðaveður. Vindur fer yfir 35 metra á sekúndum í hviðum á Kjalarnesi og vindhviða fór yfir 60 m/s undir Hafnarfjalli. Mikil úrkoma er og vatnsagi á götum og stórir pollar hafa myndast sem valda hættu ef ekki er farið varlega.

Gert er ráð fyrir að veðrið fari að ganga niður á vestanverðu landinu uppúr hádegi en þá fer veður að versna á austanverðu landinu og er gert ráð fyrir slæmu veðri þar síðdegis. Björgunarsveitir eru víða í aðgerðum og í viðbragðstöðu.

Fólk er beðið að huga að niðurföllum og lausum hlutum og hringja í Neyðarlínu 112 ef þörf er á aðstoð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×