Fótbolti

Leik Motherwell og Celtic frestað

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mark McGhee, knattspyrnustjóri Motherwell, ræðir við fjölmiðla fyrir utan Fir Park, heimavöll Motherwell.
Mark McGhee, knattspyrnustjóri Motherwell, ræðir við fjölmiðla fyrir utan Fir Park, heimavöll Motherwell. Nordic Photos / Getty Images

Leik Motherwell og Glasgow Celtic sem átti að fara fram á laugardaginn hefur verið frestað vegna fráfalls Phil O'Donnell, fyrirliða Motherwell.

O'Donnell lést eftir að hann hné niður í leik Motherwell og Dundee United í skosku úrvalsdeildinni gær. Hann var fyrirliði liðsins.

Motherwell átti einnig að spila við Hibernian á miðvikudaginn en þeim leik hefur einnig verið frestað.

Stjórnarformaður skosku úrvalsdeildarinnar sagði að leik Celtic og Motherwell hafi verið frestað að ósk fjölskyldu Phil O'Donnell.

Þá hefur leik Gretna og St. Mirren einnig verið frestað en Gretna leikur heimaleiki sína á Fir Park, heimavelli Motherwell, þar sem þeirra eigin leikvangur stenst ekki kröfur skosku úrvalsdeildarinnar.

Faðir Phil, Bernard O'Donnell, hefur tjáð sig opinberlega um fráfall sonar síns.

„Enginn okkar hefur gert sér fyllilega grein fyrir hvað hefur átt sér stað,“ sagði hann. „En við erum afar þakklát því fólki sem hefur sýnt okkur stuðning.“

Hann bað um að fjölskyldunni yrði gefinn tími til að syrgja í friði. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×