Innlent

Fimm og hálft kíló af fíkniefnum til landsins með hraðsendingu

Tollgæslan á Suðurnesjum lagði hald á fimm og hálft kíló af hörðum efnum sem komu með hraðsendingu til landsins frá Þýskalandi. Þetta er mesta magn sem tollgæslan hér á landi hefur fundið við eftirlit með hraðsendingum.

Það var um miðjan nóvember sem tollgæslan á Suðurnesjum lagði hald á efnin,fimm kíló af amfetamíni og hálft kíló af kókaíni. Viðamikil rannsókn hófst í kjölfarið sem teygir anga sína meðal annars til Þýskalands og hefur lögreglan á Suðurnesjum í samstarfi við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu borið hitann og þungann af rannsókninni.

Mikil leynd hefur ríkt yfir rannsókninni en samkvæmt öruggum heimildum fréttastofu þá hefur enginn verið handtekinn vegna málsins. Götuverð efnanna er samkvæmt vef SÁÁ rúmar 28 milljónir króna. Ef efnin eru tiltölulega hrein þá er líklegt að þau verði drýgð og þá gæti verðmæti þeirra numið allt að 85 milljónum króna.

Jóhann R. Benediktsson, lögreglu- og tollstjóri á Suðurnesjum sagði í samtali við fréttastofu í dag að kominn sé góður skriður á rannsóknina en sendingin var að koma frá Þýskalandi. Hann segir lögregluna hafa verið í samstarfi við starfsfélaga sína ytra í tengslum við málið en vill að öðru leyti ekki greina frá málsatvikum.

Að því er fréttastofa kemst næst þá er þetta mesta magn sem komið hefur hingað til lands með hraðsendingu og lagt hefur verið hald á en efnin fundust við venjubundið eftirlit með sendingunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×