Innlent

Nýársávarps forsetans beðið

Þegar hálft ár í næstu forsetakosningar hefur Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ekki gefið upp hvort hann ætli að sækjast eftir endurkjöri. Margir bíða spenntir eftir vísbendingum um framtíð Ólafs sem kunna að birtast í nýársávarpi hans.

Ólafur Ragnar Grímsson er fimmti forseti lýðveldisins og hefur næsta sumar gengt embættinu í tólf ár.

Tveir af þeim fjórum sem gegndu embættinu á undan Ólafi sátu í sextán ár, þau Ásgeir Ásgeirsson og Vigdís Finnbogadóttir. Kristján Eldjárn sat jafn lengi og Ólafur hefur setið nú eða í tólf ár. Sveinn Björnsson, fyrsti forseti Íslands, sat í átta ár en Sveinn lést í embætti.

Í viðtali sem tekið var við Ólaf á afmælisdegi hans 14. maí síðasta vor sagði Ólafur að hann ætlaði sér ekki að taka ákvörðun um framhaldið fyrr en næsta vetur að vel athuguðu máli.

Til stóð að ævisaga Ólafs yrði gefin út fyrir þessi jól en ekki varð af því. Margir vilja meina að það sé merki um að Ólafur ætli að bjóða sig fram aftur. Einnig það að Ólafur telji sig áfram hafa hlutverki að gegna í baráttunni gegn loftlagsbreytingum.

Margir bíða spenntir eftir nýársávarpi Ólafs þar sem þeir telja að þar muni Ólafur gefa svör um framtíð sína

Vigdís Finnbogadóttir tilkynnti við upphaf þings í október 1995, eða tæpum níu mánuðum fyrir kosningar, að hún ætlaði sér ekki að sækjast eftir því að gegna embættinu áfram.

Fyrir kosningarnar árið 2004 beið Ólafur fram í miðjan mars með að tilkynna að hann sæktist eftir endurkjöri. Heimildarmenn fréttastofa telja ólíklegt að Ólafur bíði svo lengi með að tilkynna það ef hann ætli sér að hætta í vor, til að aðrir sem hafa áhuga á að gegna embættinu hafi tíma til að hugsa sig um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×