Innlent

Báru ekki ábyrgð á reiðnámskeiðsslysi

MYND/Heiða

Hæstiréttur hefur staðfest sýknudóm sem kona höfðaði á hendur manni og Hestamannafélaginu Sörla vegna slyss sem hún varð fyrir á reiðnámskeiði hjá Sörla.

Maðurinn var á hesti fyrir utan reiðskemmu Sörla og æddi hesturinn skyndilega af stað og hljóp konuna niður. Fór konan fram á fimm milljónir í bætur vegna meiðsla sem hún varð fyrir við áreksturinn.

Konan byggði kröfur sínar á hendur manninum meðal annars á því að hann hefði átt sök á tjóni hennar þar sem hann hefði ekki átt að fara á bak hesti sínum svo nærri reiðskemmunni en jafnframt að manninum hefði borið að vara konuna og aðra nærstadda við því að hesturinn væri stjórnlaus. Kröfur á hendur Sörla byggði konan á því að aðstæður í grennd við reiðskemmuna hefðu ekki verið nægilega öruggar.

Í niðurstöðu hins áfrýjaða dóms sem staðfestur var af Hæstarétti sagði að konan hefði ekki sýnt fram á að maðurinn hefði sýnt af sér saknæma háttsemi. Hefði verið um óhappatilvik að ræða sem maðurinn yrði ekki talinn bera ábyrgð á. Þá þótti ósannað að rekja mætti slysið til aðstæðna við reiðskemmu Sörla og var félagið því líka sýknað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×