Innlent

Stjórnvöld kanni áhrif Vaxholm-dóms hér á landi

MYND/GVA

Þingflokkur Vinstri - grænna vill að íslensk stjórnvöld kanni það hvaða áhrif dómur Evrópudómstólsins í svokölluðu Vaxholm-máli hafi hér á landi og hvetur til samráðs með verkalýðshreyfingunni um það.

Í tilkynningu Vinstri - grænna er bent á dómurinn hafi kveðið á um að heimilt sé að greiða laun samkvæmt kjarasamningum sem gilda í heimalandi verkamanna jafnvel þótt verkefnið sé unnið í öðru landi.

Forsaga málsins er sú að lettneskt fyrirtæki tók að sér verkefni í bænum Vaxholm í Svíþjóð og greiddi starfsmönnum sínum samkvæmt lettneskum kjarasamningum. Sænsk verkalýðsfélög vildu hins vegar að greitt yrði samkvæmt sænskum kjarasamningum og fór málið fyrir Evrópudómstólinn.

Forsendur Evrópudómstólsins eru þær að vinnuafl skuli vera hreyfanlegt innan EES-svæðisins, það sé ein af grunnstoðum hugmyndafræðinnar um sameiginlegan evrópskan vinnumarkað. „Dómurinn telur það sjónarmið vega þyngra en sjálf undirstaða norræns vinnumarkaðar, félagslegir algildir kjarasamningar sem tryggi öllum lágmarkskjör," segir í tilkynningu Vinstri - grænna sem segja jafnframt að dómurinn vegi gróflega að réttindum launafólks í Evrópu og setji stöðu kjarasamninga á norrænum vinnumarkaði í uppnám.

„Hér á landi er kveðið á um það í lögum að íslenskir kjarasamningar skuli virtir sem lágmarkskjör. Engu að síður er nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld hafi frumkvæði að því að kanna hugsanlegar afleiðingar dómsins og hvetur VG til samráðs við verkalýðshreyfinguna um það efni. VG lýsir samstöðu með verkalýðshreyfingunni hér á landi og í Evrópu í baráttu hennar gegn undirboðum á vinnumarkaði og þeirri atlögu sem nú er gerð að réttarstöðu hennar," segir í tilkynningu Vinstri - grænna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×