Innlent

Mikil vonbrigði að Krymski verði ekki framseldur

Breki Logason skrifar
Ólafur Helgi Kjartansson
Ólafur Helgi Kjartansson

„Þetta undirstrikar að nú þarf enn frekar að skerpa á reglum um hvernig tekið er á mönnum sem eru ekki íslensir ríkisborgarar og eru sakaðir um alvarleg brot," segir Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður og lögreglustjóri á Selfossi.

Przemyslav Pawel Krymski var úrskurðaður í farbann grunaður um nauðgun á Selfossi fyrir skömmu. Hann fór síðan úr landi en var handtekinn á landamærum Þýskalands og Póllands á mánudaginn. Pólska ríkið hefur í kjölfarið gefið út að maðurinn verði ekki framseldur til Íslands og er Ólafur Helgi afar ósáttur með þá niðurstöðu.

„Það hefði verið öruggast að hafa þennan mann í gæsluvarðhaldi en dómstólar eru tregir til þess að beita því úrræði. Menn geta auðveldlega komið sér undan og það eru margar flugferðir frá landinu á hverjum degi, þetta eru því mikil vonbrigði," segir Ólafur Helgi.

Ólafur segist ekki vita hvað gerist í framhaldinu og segir lögreglu hafa farið yfir flesta möguleika í stöðunni. „Ég hef verið að velta fyrir mér hvort það séu einhver úrræði. En það er ljóst að Pólska ríkið ætlar að standa vörð um sinn ríkisborgara og koma í veg fyrir að hann svari til saka hér á landi."

Talið er að annar Pólverji sem tengist sama máli hafi einnig rofið farbann og yfirgefið landið. Ólafur Helgi getur þó ekki staðfest að svo sé og segir ekkert að frétta af því máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×