Innlent

Kannað hvort tekjutengja eigi umferðarlagasektir

MYND/Rósa

Nefnd sem Kristján L. Möller samgönguráðherra hefur skipað til þess að endurskoða umferðarlögin á meðal annars að skoða hvort tekjutengja eigi umferðarlagasektir. Þetta kemur fram í frétt á vef samgönguráðuneytisins.

Núgildandi umferðarlög eru frá árinu 1987 og þykir kominn tími til að færa þau í nútímalegra horf í samræmi við þá þróun sem orðið hefur á sviði umferðarmála á liðnum árum. Á meðal annars að skoða reglur um ökukennslu og kanna hvort mögulegt sé að setja áfengislása í bifreiðar til að koma í veg fyrir ölvunarakstur þeirra sem gerst hafa sekir um slík brot. Verður horft til löggjafar annarra landa en þess má geta að í Finnlandi eru umferðarlagasektir tekjutengdar.

Ráðherra hefur skipað Róbert R. Spanó, prófessor og varaforseta lagadeildar Háskóla Íslands, formann nefndarinnar en Róbert hefur jafnframt verið formaður refsiréttarnefndar undanfarin ár. Gert er ráð fyrir að nefndin taki til starfa þann 15. janúar 2008 og ljúki störfum í lok árs 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×