Innlent

Farið yfir hvort borgin er skaðabótaskyld vegna laugarslyss

MYND/Valli

Reykjavíkurborg og Íþrótta- og tómstundaráð fara nú yfir mál átta ára stúlku sem lenti í alvarlegu slysi í Laugardalslaug á laugardaginn var þegar fingur hennar skarst af eftir að hún flækti hann í vír.

Í tilkynningu frá skrifstofu ÍTR segir að málið fari í hefðbundinn farveg slysamála hjá Reykjavíkurborg en þar verður meðal annars farið yfir það hvort um bótaskylt mál er að ræða. Starfsmenn ÍTR hafi sýnt rétt viðbrögð í málinu og vangaveltur um að með einhverjum hætti sé verið að víkja sér undan bótaskyldu í málinu, sé hún fyrir hendi, eigi ekki við rök að styðjast.

Forsvarsmenn laugarinnar hafi ekki sagt neitt annað við fjölmiðla, þrátt fyrir mikinn ágang þeirra, en hvað gerst hafi á slysstað og að um hörmulegan atburð hafi verið að ræða. Fulltrúar ÍTR munu hitta viðkomandi aðila og fara yfir málið frekar á næstu dögum. Reykjavíkurborg og ÍTR munu að öðru leyti ekki tjá sig neitt frekar um málið fyrr en það telst upplýst.

Ragnar Karl Ingason, sem var með stúlkuna í umsjón sinni þegar slysið varð, sendi í dag Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og Steinþóri Einarssyni, skrifstofustjóra íþróttamála hjá Reykjavíkurborg, bréf þar sem hann óskaði eftir fundi, þar sem farið verði yfir málið í heild. Ragnar segir að skýringar forsvarsmanna laugarinnar á orsökum atviksins standist ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×