Innlent

Búsæld eignast Norðlenska

Eignarhaldsfélagið Búsæld, sem er félag kjötframleiðenda í Eyjafirði, Þingeyjarsýslum og á Austur- og Suðausturlandi kaupi, hefur keypt öll hlutabréf í kjötvinnslufyrirtækinu Norðlenska fyrir 568 milljónir króna.

Búsæld átti tæp 40 prósent í fyrirtækinu en kaupir rúmlega 45 prósenta hlut KEA, tæplega átta prósenta hlut Norðurþings og Akureyrarbæjar og rúmlega sjö prósenta hlut eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga í Norðlenska. Skrifað var undir samninginn við Akureyrarbæ með fyrirvara um samþykki bæjarráðs.

Kaup Búsældar á hlutabréfum KEA eru samkvæmt hluthafasamkomulagi sem félögin gerðu árið 2004 eftir því sem segir í tilkynningu vegna kaupanna.

Þá hefur verið gengið frá samningi við fasteignafélagið Miðpunkt á Akureyri, sem er í eigu Eiðs og Hreins Gunnlaugssona, um kaup þess á öllum fasteignum Norðlenska við Grímseyjargötu á Akureyri og yfirtöku á lóðarleigusamningi. Aðkoma Miðpunkts að málinu með kaupum á fasteignunum á Akureyri skiptir sköpum fyrir Búsæld í kaupum á öllum hlutabréfum í Norðlenska og að framleiðendur eignist þannig félagið að fullu.

Norðlenska verður þó áfram með stórgripasláturhús og kjötvinnslu í húsakynnunum en mun eftir söluna leigja húsakynnin samkvæmt bindandi tólf ára leigusamningi. Norðlenska mun áfram eiga og reka núverandi fasteignir félagsins á Húsavík þar sem er sauðfjársláturhús og langstærsta sérhæfða vinnslustöð landsins fyrir kindakjöt.

Í Búsæld eru nú um 530 kjötframleiðendur af Norðurlandi, Austurlandi og Suðausturlandi. Félagið er af þeim stærstu á Norðausturlandi með rúmlega þriggja milljarða króna veltu. Hjá félaginu eru um 180 ársverk, þar af um 170 ársverk á Akureyri og Húsavík, 8 á Höfn í Hornafirði og 6 í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×