Innlent

Erla Ósk íhugar lögsókn

Andri Ólafsson skrifar

„Þetta fullkomnar tilgang minn sem var alltaf sá að vekja athygli á þessum vinnubrögðum," segir Erla Ósk Arnardóttir en heimavarnarráðuneyti Bandaríkjanna sendi utanríkisráðherra bréf í dag þar sem meðhöndlun starfsmanna þess á Erlu var hörmuð.

Erla Ósk mátti dúsa í yfirheyrsluherbergjum á JFK-flugvelli í New York eftir að í ljós kom að fyrir tólf árum hafði hún dvalið lengur í Bandaríkjunum en vegabréfsáritun hennar leyfði, alls þremur vikum lengur. Eftir yfirheyrslurnar var svo hún flutt í hlekkjum klukkutíma leið til fangelsis í New Jersey. Þar var hún yfirheyrð aftur og fékk fyrstu máltíðina í fjórtán tíma.

Á þriðjudagsmorgun í síðustu viku var hún svo flutt á flugvöllinn aftur, leidd hlekkjuð í biðsal Icelandair og losuð úr handjárnunum í landganginum

Erla segist fagna viðbrögum heimavarnarráðuneytisins sem ætlar að endurskoða vinnubrögð sín í þessum sambærilegum málum.

Málinu er þó ekki alfarið lokið að hálfu Erlu sem staðfesti við Vísi að hún íhugi að höfða skaðabótamál í Bandaríkjunum. Erla segir að lögmenn vestanhafs séu að kanna jarðveginn en hún undirstrikar að enginn ákvörðun hafi verið tekin um málshöfðun enn.

Erla segir engu að síður að viðbrögð heimavarnarráðuneytissins í dag undirstriki að það sé grundvöllur fyrir slíkri málshöfðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×