Innlent

Kemur á óvart hversu skipulögð og umfangsmikil aðför Eimskips var

Ásbjörn Gíslason er forstjóri Samskipa.
Ásbjörn Gíslason er forstjóri Samskipa. MYND/E.Ól

Stjórnendur Samskipa segja að það komi á óvart hversu skipulögð og umfangsmikil aðför Eimskips að félaingu hafi verið og segja niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins frá því fyrr í dag staðfesta að Samskip hafi haft gilda ástæðu til að kæra Eimskip.

Eins og fram hefur komið í fréttum sektaði Samkeppniseftirlitið Eimskip um 310 milljónir króna fyrir að misnota markaðsráðandi stöðu sína á sjóflutningamarkaði og fyrir að reyna að bola Samskipum út af markaðnum.

Í tilkynningu frá Samskipum fagna stjórnendur félagsins því að niðurstaða skuli vera fengin í málið en rannsókn samkeppnisyfirvalda hófst árið 2002 í framhaldi af kæru frá Samskipum. „Ljóst er að málið var alvarlegra en stjórnendur Samskipa gerðu sér grein fyrir á sínum tíma. Það kemur jafnframt á óvart hversu skipulögð og umfangsmikil þessi aðför að Samskipum var og þar með aðför að frjálsri samkeppni. Með þessum brotum á 11. grein samkeppnislaganna, sem ætlað er að vernda neytendur og tryggja heilbrigða samkeppni, var í raun ráðist gegn hagsmunum almennings og fyrirtækja í landinu," segja Samskipsmenn.

Þeir benda jafnframt á að samkeppnisyfirvöld hafi með rannsókn sinni rækt skyldur sínar með ágætum og komið þeim skýru skilaboðum á framfæri að fyrirtæki með markaðsráðandi stöðu beri mikla ábyrgð og verði að standa undir henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×