Innlent

Heimavarnarráðuneyti BNA harmar meðferðina á Erlu Ósk

Erla Ósk Arnardóttir má þola harða meðferð hjá innflytjendaeftirlit Bandaríkjanna.
Erla Ósk Arnardóttir má þola harða meðferð hjá innflytjendaeftirlit Bandaríkjanna.

Heimavarnarráðuneyti Bandaríkjanna harmar þá meðferð sem Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl hlaut við komu hennar til Bandaríkjanna um þarsíðustu helgi. Þetta kemur fram í bréfi sem Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra barst í morgun frá heimavarnaráðuneytinu.

Erla Ósk mátti dúsa í yfirheyrsluherbergjum á JFK-flugvelli í New York eftir að í ljós kom að fyrir tólf árum hafði hún dvalið lengur í Bandaríkjunum en vegabréfsáritun hennar leyfði, alls þremur vikum lengur. Eftir yfirheyrslurnar var hún flutt í hlekkjum klukkutíma leið til fangelsis í New Jersey. Þar var hún yfirheyrð aftur og fékk fyrstu máltíðina í fjórtán tíma. Á þriðjudagsmorgun í síðustu viku var hún svo flutt á flugvöllinn aftur, leidd hlekkjuð í biðsal Icelandair og losuð úr handjárnunum í landganginum.

Erla leitaði til utanríksiráðuneytisins vegna málsins og kallaði utanríkisráðherra sendiherra Bandaríkjanna á sinn fund og kom á framfæri kvörtun og óskaði eftir skýringum á meðferðinni. Í svarbréf heimavarnarráðuneytisins kemur fram að það harmi atvik í máli Erlu Óskar.

Ráðuneytið telur að rétt hefði verið að meðhöndla Erlu á annan og mildilegri hátt. Ráðuneytið segir einnig í bréfinu að m.a. af þessu tilefni verði bandarískar starfsreglur er varða komu erlendra farþega til Bandaríkjanna og um hald fólks sem bíður brottvísunar endurskoðaðar og úrbóta leitað. Utanríkisráðherra metur mikils hversu vel sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi hefur tekið á þessu máli eftir því sem segir í tilkynningu utanríkisráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×