Innlent

Sektaður fyrir að taka lögreglumann í bóndabeygju

Maður hefur verið dæmdur fyrir að trufla lögreglu við skyldustörf. Hann hélt lögreglumanni í skrúfstykki og truflaði með því handtöku.

Ríkissaksóknari höfðaði málið fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra á hendur manni frá Skagaströnd. Skagstrendingurinn var staddur á Geislagötunni á Akureyri í vor, ekki langt frá Sjallanum, og braut gegn valdstjórninni þegar hann kom aftan að lögreglumanni sem þar var staddur við handtöku, greip um hendur hans og búk með báðum höndum, og hélt höndum lögreglumannsins föstum við síðu um nokkurt skeið.

Þannig hindraði Skagstrendingurinn lögreglumanninn við skyldustörf. Gárungarnir gætu sagt að löggan hefði verið tekin í hálfgerða bóndabeygju en valdstjórninni þótti málið ófyndið og kærði.

Skagstrendingurinn játaði brotið og lýsti iðrun fyrir dómi. Hann var dæmdur til sð greiða 60.000 króna sekt fyrir athæfið en sæta ella fangelsi í fjóra daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×