Innlent

„Þetta er þitt síðasta verk“

Frá Neskaupstað.
Frá Neskaupstað. MYND/Elma

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að bæði hóta lögreglumanni og slá til hans ásamt því að valda skemmdum í fangaklefa hjá lögreglunni í Neskaupstað.

Maðurinn var handtekinn eftir að hafa valdið skemmdum og staðið í slagsmálum í Egilsbúð í Neskaupstað í byrjun þessa árs. Hann var færður á lögreglustöðina í Neskaupstað og hótaði hann þar lögreglumanni og varðstjóra lífláti með orðunum „þetta er þitt síðasta verk".

Þá var honum gefið að sök að hafa brotið loftljós í og eyðilagt dýnu í fangaklefa og á sama stað slegið lögregluþjón í andlitið með flötum lófa þannig að hann hlaut bólgur og eymsli undir vinstra auga.

Maðurinn játaði á sig tvö síðarnefndu brotin en neitaði að hafa hótað lögreglumönnunum lífláti. Út frá framburði þeirra var hann hins vegar einnig sakfelldur fyrir það.

Auk skilorðsbundins fangelsis var hann dæmdur til að greiða tæplega 35 þúsund krónur fyrir skemmdir á loftljósinu og dýnunni í fangageymslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×