Innlent

Vasaþjófar rændu konu aleigunni á Laugavegi

MYND/GVA

Ragnheiður Guðjónsdóttir lenti í þeirri óskemmtilegu reynslu í gær að vasaþjófar rændu af henni peningaveskinu í verslun á Laugaveginum. Í veskinu var aleiga Ragnheiðar, en hún notar ekki greiðslukort og hafði tekið út um 30 þúsund krónur í bankanum og hugðist hún láta þá duga til jóla.

Ragnheiður segist hafa tekið eftir því þegar hún stóð og skoðaði vörur að kona stillti sér þétt upp við hana. „Ég færi mig til þess að gefa henni pláss en þá er maður kominn upp að mér líka þannig að ég komst eiginlega ekkert. Þetta endaði með því að ég þurfti eiginlega að ýta við konunni til að komast leiðar minnar. Ég fyrrtist nú aðeins við og þegar ég leit um öxl brosti maðurinn til mín." Ragnheiður segist því næst hafa farið til þess að borga vörurnar sem hún ætlaði sér að kaupa en þegar hún seildist eftir peningaveskinu sem hún geymdi í töskunni sinni var það horfið.

Hana segist strax hafa grunað hvers kyns var, en fólkið var þá á bak og burt. „Ég fór samt í búðina sem ég hafði verslað í rétt áður til að ganga úr skugga um að veskið væri ekki þar. Svo snéri ég til baka í verslunina og hringdi á lögregluna."

Ragnheiður segir það afar slæma tilfinningu að lenda í klónum á vasaþjófum. Hún segist hafa verið í uppnámi og þegar lögregla reyndi að fá lýsingu á fólkinu hjá henni mundi hún lítið eftir því. „Manni finnst að verið sé að ráðast inn í einkalíf manns, en ég er fegin að þau tóku ekkert annað úr töskunni en peningaveskið. En eftir að hafa lent í þessu mun ég passa mig mun betur en áður. Maður býst ekki við því að lenda í svona hér á landi. Maður varar sig í útlöndum, en ekki hér heima," segir Ragnheiður.

Friðrik Smári Björgvinsson, hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segist ekki hafa heyrt af því að vasaþjófar leiki lausum hala í Reykjavík. „Það er afar sjaldfæft að við fáum mál af þessu tagi inn á borð til okkar," segir Friðrik. „Menn hér á bæ kannast ekki við að aukning sé á brotum sem þessum og engin merki eru um að einhverjir standi í skipulegum vasaþjófnaði í Reykjavík."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×