Innlent

Bíll lenti í aurskriðu í Eyrarhlíð

Aurskirða féll á bíl fjögurra ungmenna á þjóðveginum í Eyrarhlíð á milli Ísafjarðar og Hnífsdals á tíunda tímanum í gær. Þau komust út úr bílnum og hlupu yfir skriðuna þar sem þau komust í annan bíl og sakaði þau ekki. Skriðan var um 50 metra breið og tveir metrar á dýpt þar sem mest var. Veginum var lokað og féllu þrjár skriður á hann til viðbótar í nótt.

Vegagerðarmenn ruddu svo veginn undir morgun, þegar loksins stytti upp. Þá hreinsaði Vegagerðin snemma í morgun aurspíur og grjót sem féllu á Óshlíðarvegi til Bolungarvíkur í nótt.Gríðarleg úrkoma og hvassviðri voru vestra í gærkvöldi og var Eyrin á Ísafirði eins og tjörn yfir að líta þar sem niðurföll höfðu ekki undan. Vatn flæddi í kjallara sjúkrahússins og var slökkviliðið við dælingu þar í alla nótt.

Björgunarsveitarmenn voru lögreglu til aðstoðar og heftu meðal annars folk af Edinborgarhúsinu, og björgunarsveitarmenn í Bolungarvík fergðu þak á húsi með armi á stórri skurðgröfu. Mikið vatnsveður var líka á Snæfellsnesi og rofnaði þjóðvegurinn um Skógarströnd vegna vatanvaxta, en búið er að lagfæra hann til bráðabirgða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×