Innlent

Tvísýnt að stúlkan haldi fingrinum

Móðir stúlku sem missti fingur við sundlaugarbakka í Laugardagslauginni um helgina íhugar að höfða mál á hendur Reykjavíkurborg vegna slyssins. Lítil von er að stúlkan haldi fingrinum þrátt fyrir margra klukkustunda aðgerð.

Stúlkan, sem er átta ára, var að leik með vinum sínum við sundlaugarbakkann þegar slysið átti sér stað.

Svo virðist sem stúlkan hafi flækt fingurinn í sérstakan vír sem notaður var til að halda uppi viðvörunarskilt. Ekki vildi betur til en svo að hún datt en við það skarst fingurinn af.

Stúlkan gekkst undir margra klukkustunda aðgerð á Landspítalanum í Fossvogi aðfarnótt sunnudags þar sem reynt var græða fingurinn aftur á höndina. Um vísifingur hægri handar er að ræða.

Aðgerð sem þessi er flókin og erfið en samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum er afar tvísýnt um að stúlkan haldi fingrinum. Það ætti að skýrast seinna í vikunni.

Móðir stúlkunnar sagðist í samtali við fréttastofu í dag íhuga að höfða mál á hendur Reykjavíkurborg vegna slyssins. Er hún afar ósátt við hvernig gengið var frá vírnum við sundlaugarbakkann.

Logi Sigurfinnsson, forstöðumaður Laugardalslaugar, sagðist harma slysið í samtali við fréttastofu. Hann sagði að umrædd viðvörunarskilti hefðu verið sett upp síðasta vor til að koma í veg fyrir dýfingar í grynnri enda laugarinnar - en alvarlegt slys átti sér stað vegna þessa í apríl.

Um þrjú skilti hefði verið að ræða en nú sé búið að taka þau öll niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×