Innlent

Viðhorf til erfiðleika skiptir mestu

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir sálfræðingur.
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir sálfræðingur.
Fólk sem er hvað ánægðast með lífið er oft búið að ganga í gegnum mikil umskipti eða erfiðleika. Hamingja felst ekki í því að hafa lifað sléttu og felldu lífi. Þetta kom fram í máli Dóru Guðrúnar Guðmundsdóttur sálfræðings hjá Lýðheilsustöð, þegar nýútgefin bók, sem ber titilinn Velgengni og vellíðan - Um geðorðin 10, var kynnt í dag.

„Viðhorf til erfiðleikanna skiptir sköpum. Þeir sem líta á erfiðleika sem ógn, upplifa sjálfa sig ekki sem gerendur og verða frekar fórnarlamb óblíðra örlaga, meðan þeir sem ná að sjá erfiðleika sem ögrun, eitthvað sem þeir eru tilbúnir að takast á við, ná frekar að vinna sig í gegnum þá á jákvæðan hátt og læra í framhaldinu að meta lífið í nýju ljósi," sagði Dóra Guðrún.

Sex ár eru liðin frá því að geðorðin 10 voru fyrst sett fram en í bókinni útskýrir Dóra Guðrún fræðilegan bakgrunn þeirra fyrir almenning.

Það var Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra sem fékk afhent fyrsta eintakið af bókinni við hátíðlegt tækifæri í Borgarbókasafninu við Tryggvagötu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×