Innlent

Blaðburðarkona kom í veg fyrir stórtjón í bruna

Eldurinn kviknaði í rafmagnstöflu í bílskúr við Viðarás.
Eldurinn kviknaði í rafmagnstöflu í bílskúr við Viðarás. MYND/Stöð 2

Blaðburðarkona kom í veg fyrir stórtjón þegar hún varð vör við eld í bílskúr við Viðarás í Reykjavík undir morgun.

Hún reyndi fyrst að vekja íbúahússins, sem skúrinn stendur við, en dyrabjallan virkaði ekki þar sem allt rafmagn var farið af húsinu. Hún lét þá íbúa í næsta húsi kalla á slökkvilið.

Þegar það kom á vettvang, laust upp úr klukkan sex, logaði talsverður eldur í skúrnum og reykur hafði borist inn í áfast íbúðarhúsið. Slökkviliðsmenn úr Tunguhálsstöð, sem voru innan við fjórar mínútur á staðinn, náðu brátt að hefta útbreiðslu eldsins og slökkva hann.

Síðan þurfti að reykræsta skúrinn og húsið en engan íbúa í húsinu sakaði. Svo vel vildi til að mest öll búslóð íbúanna var í gámi fyrir utan, þar sem verið var að taka húsið í gegn, og komst því ekki reykur í hana. Eldurinn kviknaði í rafmagnstöflu í skúrnum og við það fór rafmagn af húsinu. Verið er að rannsaka hvað fór úrskeiðis í rafmagnstöflunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×