Enski boltinn

Benitez rólegur þrátt fyrir tapið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafael Benitez á hliðarlínunni í dag.
Rafael Benitez á hliðarlínunni í dag. Nordic Photos / Getty Images

Rafael Benitez er öruggur um starfið sitt þó svo að Liverpool hafi í dag tapað á heimavelli fyrir Manchester United.

Eigendur Liverpool, Bandaríkjamennirnir Tom Hicks og George Gillett, voru á vellinum í dag en Benitez hefur staðið í deilum við þá vegna stefnu félagsins í leikmannakaupum.

Þeir munu nú funda í vikunni og óttast sumir að dagar Benitez með Liverpool kunni að vera taldir.

„Úrslitin í dag breyta engu. Við munum ræða málin til að leiðrétta allan misskilning. Við munum ræða þau vandamál sem upp hafa komið og við munum segja eitthvað við fjölmiðla í kjölfarið ef nauðsyn krefur."

Benitez sagði að munurinn á liðunum í dag hefði verið sá að United hefði nýtt færin sín betur.

„Við fengum okkar færi en nýttum þau ekki. Þeir fengu eitt færi og nýttu það," sagði Benitez.

Alex Ferguson, stjóri United, viðurkenndi eftir leik að hann hefði haft áhyggjur af því hversu margar aukaspyrnur liðið fékk á sig rétt utan vítateigs.

„Þegar andstæðingurinn fær svona margar aukaspyrnur er alltaf möguleiki á því að boltinn hafni í netinu. Ég hélt til dæmis að þeir myndu skora úr aukaspyrnunni sem þeir fengu í uppbótartíma. En við vorum fastir fyrir og náðum þeim úrslitum sem við áttum skilið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×