Enski boltinn

Mirror: Ákveðið að reka Eggert í september

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björgólfur og Eggert á leik með West Ham í vor.
Björgólfur og Eggert á leik með West Ham í vor. Nordic Photos / Getty Images

Sunday Mirror birtir í dag langa grein um aðdraganda þess að Eggert Magnússon hætti sem stjórnarformaður West Ham nú í vikunni.

Blaðið segir að Björgólfur Guðmundsson, núverandi stjórnarformaður og eigandi félagsins, hafi ákveðið að láta rannsaka rekstur félagsins eftir að Eggert samdi við Svíann Freddie Ljungberg.

Ljungberg mun hafa samið um að fá 110 þúsund pund í vikulaun sem er þrefalt það sem hann var með hjá Arsenal. Ljungberg er þrítugur og hefur verið plagaður af meiðslum síðustu ár. Hann hefur aðeins komið við sögu í átta leikjum á tímabilinu.

Því er haldið fram að ákvörðun um að reka Eggert hafi verið tekin þegar ákveðið var að hann myndi hætta sem framkvæmdarstjóri félagsins í september síðastliðnum.

Ástæðan fyrir því að það hafi ekki verið gert strax mun vera sú að Eggert nýtur mikilla vinsælda hjá stuðningsmönnum West Ham.

Blaðið nefnir einnig Lucas Neill til sögunnar. Blackburn var tilbúið að selja hann til Liverpool í janúar síðastliðnum fyrir 1,5 milljónir punda en þá hafi Eggert opnað veskið og boðið Neill 90 þúsund pund í vikulaun - Liverpool hafði „aðeins" boðið honum 55 þúsund pund.

Sunday Mirror segir einnig að Björgólfur hafi haft áhyggjur af því að Eggert hafi meðal annars ráðið tengdason sinn til að reka smásölurekstur félagsins.

West Ham var í miklum hremmingum þegar þeir Björgólfur og Eggert keyptu félagið. Eftir það var liðið áfram í mikilli botnbaráttu en náði fyrir rest að bjarga sér frá falli, að miklu leyti vegna góðrar frammistöðu Carlos Tevez.

Tevez-málið svokallaða dró mikinn dilk á eftir sér og á endanum var West Ham sektað um 5,5 milljónir punda vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×