Enski boltinn

Bjargið Bangura!

Áhorfendur sýna stuðning sinn í verki.
Áhorfendur sýna stuðning sinn í verki. Nordic Photos / Getty Images

Áhorfendur á leik Watford og Plymouth sýndu Al Bangura stuðning sinn í verki með einföldum skilaboðum.

„He's family," stóð á blöðunum sem stuðningsmenn héldu á lofti í hálfleik í gær - hann er hluti af fjölskyldunni.

Bangura hefur verið vísað úr landi af yfirvöldum í Bretlandi en hann kom þangað fyrir fjórum árum síðan sem flóttamaður frá Sierra Leone.

Lögfræðingar Bangura hafa nú áfrýjað máli hans til innanmálaráðherra Bretlands, Jacqui Smith.

Bangura táraðist þegar hann sá blöðin á lofti. Eftir leikinn sagði Adrian Boothroyd, stjóri liðsins, að hann væri hrærður yfir þeim stuðningi sem bæði stuðningsmenn Watford og Plymouth sýndu.

Al Bangura þakkar áhorfendum fyrir stuðninginn.Nordic Photos / Getty Images

„Nú er áfrýjunarferlið farið af stað og nú tekur við bið. Við erum nú að reyna að vekja eins mikla athygli og við getum á málinu og vonandi verður fundin skynsamleg lausn á því."

Bangura nýtur einnig stuðnings samtaka knattspyrnumanna í Englandi sem og alþjóðasamtaka leikmanna. Sömuleiðis hefur Elton John, fyrrum eigandi Watford og heiðursforseti félagsins, lýst yfir stuðningi sínum.

„Ég ligg nú á bæn um að ráðherrrann fari yfir þetta mál og leyfi mér að vera áfram," sagði Bangura sem varð nýlega faðir.

„Ég hef hlotið stuðning víða að og mér þykir vænt um það. Ég tel mig hafa gert allt rétt. Ég á mína fjölskyldu og vinnu og veld engum manni skaða. Ég er ánægður hér í Bretlandi og lít á það sem heimaland mitt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×