Enski boltinn

Capello: Mitt síðasta starf í fótboltanum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fabio Capello, nýr landsliðsþjálfari Englendinga.
Fabio Capello, nýr landsliðsþjálfari Englendinga. Nordic Photos / Getty Images

Fabio Capello segir að hann muni hætta þjálfun þegar hann hættir með enska landsliðið í knattspyrnu, hvenær sem það verði.

„Þetta verður mitt síðasta starf í fótboltanum og vonandi get ég náð að enda ferilinn á sem allra besta máta," sagði Capello. „Þessi áskorun verður öðruvísi að því leyti að starfið er hægara og flóknara þar sem ég þarf að undirbúa mig betur en eg gerði sem stjóri hjá félagsliði."

Sir Trevor Brooking, yfirmaður hjá enska knattspyrnusambandinu, varði ráðningu Capello í starfið.

„Það er enginn efi um að Brian fékk þann mann sem hann vildi fá í starfið," sagði Brooking og átti þar við Brian Barwick, formann enska knattspyrnusambandsins.

„Hann benti á mann sem honum fannst koma sterklega til greina í starfið. Hann fór rétt að málunum og fékk síðan stuðning stjórnarinnar."

En Dave Richards, stjórnarmaður ensku úrvalsdeildarinnar, gagnrýndi hins vegar vinnubrögð enska knattspyrnusambandsins.

Hann gagnrýndi sérsatklega að stjórnarmenn enska sambandsins hafi ekki hitt augliti til auglitis til að ræða þessa ákvörðun heldur haldið símafund.

„Það ætti ekki að framkvæma viðskipti á svona háu stigi í gegnum símann," sagði Richards.

En svar Brooking við þessu var einfalt. „Ég veit nú ekki um hvað einhver ágreiningur hefði átt að snúast því ákvörðunin var fremur einróma."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×