Innlent

Sjöundi lélegi þorskárgangurinn í röð

Þorskárgangurinn 2007 er sá sjöundi í röð sem stefnir í að verða lélegur. Þá er það einnig verulegt áhyggjuefni að fullorðinn þorskur er bæði þrjátíu prósentum léttari og styttri en hann var fyrir rúmum áratug.

Aðeins fimm mánuðum eftir að stjórnvöld skáru niður þorskkvóta um þriðjung er það enn eitt áfallið fyrir sjávarútveginn að fá þær fréttir frá Hafrannsóknasstofnuninni í gær að fyrstu mælingar á 2007 árganginum bendi til þess að hann sé slakur. Kristján Kristinsson, sem var verkefnisstjóri í haustmælingunni, tekur þó fram að betri mæling fáist á þessum nýjasta árgangi þorsksins í mars.

Haustmælingin hefur þó gegnum árin þótt gefa sterka vísbendingu um styrk árgangsins, og því segir Friðrik J. Arngrímsson, hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, að tíðindin séu verulegt áhyggjuefni. Þetta yrði þá sjöundi lélegi þorskárgangurinn í röð.

Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafró, vekur athygli á afar jákvæðum tíðindum af ýsustofninum. Þar séu horfurnar mjög góðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×